Sýnataka
Gæðamálin eru einn mikilvægasti þátturinn við mjólkurframleiðsluna. Hver einasta mjólkursending frá sérhverju býli þarf að standast lágmarksgæðakröfur því ein skemmd sending getur eyðilagt tugi þúsunda lítra af mjólk. Mikilvægt er að mjólkurframleiðandinn haldi vöku sinni og tilkynni til Gæðaeftirlits Auðhumlu ef minnsti grunur er um gallaða eða ónothæfa mjólk eða fargi henni á staðnum. Með fyrirbyggjandi aðgerðum, öguðum vinnubrögðum, reglubundnu eftirliti við mjaltir, kælingu og hreinlæti næst góður árangur.
Reglubundnir mjólkurflutningar eiga einnig að tryggja fullnægjandi meðferð mjólkurinnar.
Bílstjóra ber að tryggja að mjólkursýnin fái viðeigandi meðferð þar til þau koma á áfangastað.
Hann skal hafa samband við Gæðaeftirlit Auðhumlu ef eitthvað er óeðlilegt á dælingarstað og er honum óheimilt að taka einhliða ákvarðanir um dælingu eða ráðstöfun mjólkurinnar.
Flutningatæki og búnaður eiga að vera til fyrirmyndar í einu og öllu, hrein og vel þrifin, enda hluti af góðri ímynd mjólkurinnar. Viðeigandi aðstaða fyrir mjólkursýni á að vera í hverjum bíl.