19.10.2007Mjólkursamsalan fagnar dómi héraðsdóms
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag, 18. október 2007, ber forstjóra Samkeppniseftirlitsins, Páli Gunnari Pálssyni, að víkja sæti við meðferð stjórnsýslumáls sem hófst með húsleit í höfuðstöðvum Mjólkursamsölunnar 5. júní síðastliðinn, „vegna þess að hann hafi sjálfur látið í ljósi neikvæð viðhorf til stefnenda sem eru til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans í efa,” eins og segir í dómnum.
Mjólkursamsalan ehf., Auðhumla svf. og Osta- og smjörsalalan byggðu kröfu sína á því að Samkeppniseftirlitið væri vanhæft til rannsóknar og annarrar meðferðar málsins, þar sem opinberlega hafi komið fram skoðanir starfsmanna Samkeppniseftirlitsins á starfsemi stefnenda og meintu broti þeirra. Dómurinn taldi hins vegar ekki að „draga megi með réttu óhlutdrægni annarra starfsmanna stefnda í efa.”
Dómur Héraðsdóms er Mjólkursamsölunni fagnaðarefni, enda er þar fallist á það sjónarmið fyrirtækjanna að ummæli forstjóra Samkeppniseftirlitsins geri hann vanhæfan til að fjalla um málið á óhlutdrægan hátt.